Opið bréf til Sigmundar Davíðs

Auglýsing

Sæll Sig­mund­ur.

Upp­takan frá Klaustri Bar í nóv­em­ber hefur legið þungt á mér und­an­farna daga, líkt og við á um stóran hluta þjóð­ar­inn­ar. Hinn 3. des­em­ber síð­ast­lið­inn, heyrði ég þig svara blaða­mönnum sem spurðu þig hvort þú íhug­aðir afsögn. Þú sagð­ist ekki gera það og rökin sem þú gafst fyrir því voru þau að við störf þín sem þing­maður hefðir þú í gegnum árin orðið vitni að mörgum sam­bæri­lega rætnum umræðum á meðal þing­manna og jafn­vel enn verri. Þú sagðir að ef sam­ræmis ætti að gæta og þú þyrftir að víkja þá yrðu: „svo margir þing­menn sem þyrftu að fara í leyfi að ég held að þingið væri óstarf­hæft.“

Um þennan rök­stuðn­ing langar mig að fjalla í þessu bréfi mínu og nota tæki­færið og beina til þín þremur spurn­ingum í lokin sem ég yrði afar þakk­lát ef þú myndir svara með skrif­legum hætt­i. 

Auglýsing

Sé það rétt sem þú segir að Alþingi Íslend­inga yrði „óstarf­hæft“ ef orð þing­manna okkar yrðu gerð opin­ber má gefa sér að á þing­inu hafi safn­ast ein­hvers konar „sori þjóð­ar­inn­ar“. Nýjar skoð­ana­kann­anir gefa til kynna að yfir­gnæf­andi meiri­hluti þjóð­ar­inn­ar, eða u.þ.b. 90%, vill að þið sem voruð þátt­tak­endur í þessu sam­tali segið af ykkur þing­mennsku. Ástæða þess­arar óvana­legu afger­andi nið­ur­stöðu er ein­föld: Sam­talið sam­ræm­ist ekki almennri sið­ferð­is­vit­und fólks­ins í land­inu. Mér þykir sú töl­fræði, að nær allir á þingi til­heyri þeim 10-15% lands­manna sem telja að slíkt tal eigi ekki að valda afsögn – í sann­leika sagt – afar ólík­leg og held að lang­flest­ir, sem slíkar full­yrð­ingar heyra, hafni þeim sem bæði röngum og ósönn­uð­um. Það hefur svo einnig komið fram með skýrum hætti af hálfu sam­starfs­fólks þíns á Alþingi sem hefur sagt opin­ber­lega að þessi full­yrð­ing þín eigi ekki við rök að styðj­ast.

Ein af meg­in­reglum rétt­ar­rík­is­ins er sak­leysi uns sekt er sönn­uð. Í ljósi þess að þing­menn hafa svarið af sér slíkt orð­færi, verðum við að fá að trúa því Sig­mundur að fólkið á þing­inu (sem margt hvert hefur eflaust látið mis­gáfu­leg og mis­fögur orð falla í gegnum tíð­ina eins og við flest) sé ekki almennt talandi klukku­tímum saman með þeim óbæri­lega hætti sem þú og vinir þínir gerðu þetta kvöld. Sú stað­reynd þýðir hins vegar að skýr­ing þín á því hvers vegna þú vilt ekki víkja bygg­ist á til­bún­ingi. Þá má velta fyrir sér hver til­gang­ur­inn með þessum til­bún­ingi þínum sé. Mér sýn­ist í fljótu bragði tveir mögu­leikar vera þar á:

  • Í fyrsta lagi er mögu­legur til­gangur að drepa mál­inu á dreif. Beina athygli annað en að sjálfum þér, líkt og þú gerðir á fés­bók­ar­síðu þinni þegar fyrstu fréttir bár­ust af upp­tök­unni þar sem þú sagð­ist vona að farið yrði í „að­gerð­ir“ gegn fjöl­miðlum vegna máls­ins. Þá afstöðu hefur þú reyndar ekki dregið til baka að mér vit­an­lega. 

  • Í öðru lagi sýn­ist mér að til­gangur þessa rök­stuðn­ings gæti verið að hóta með óbeinum hætti sam­starfs­fólki þínu að þú munir upp­lýsa um eitt­hvað sem þú vilt meina að það hafi í gegnum tíð­ina sagt. Þessi mögu­leiki fær stoð í spurn­ingu sem þú varpar fram í fyrr­greindu við­tali við frétta­stofu Rúv þar sem þú segir orð­rétt: „Er það núna orðin skylda mín að rekja það hvað til­teknir þing­menn hafa sagt um aðra þing­menn, sem sumt hvert, því mið­ur, er jafn­vel tölu­vert gróf­ara en það sem við höfum heyrt á þessum upp­tök­um.“ Ef slíkar und­ir­liggj­andi hót­anir eru til­gangur full­yrð­inga þinna má velta fyrir sér hvort þú sért með þeim hætti að gera til­raun til að kúga til­tekna þing­menn til þagnar í því máli sem snýr að því hvort þér sjálfum sé stætt á áfram­hald­andi þing­setu.

Það sem mér finnst allra verst við ofan­greindan rök­stuðn­ing þinn er hins vegar það sem ég vil nú koma að og felur í sér hyl­djúpa hugs­ana­villu. Þú virð­ist telja (og ég hef heyrt þig nota svipuð rök áður) að ef ein­hver aðili í sam­bæri­legri stöðu og þú sjálfur hefur áður hegðað sér með hætti sem er ámæl­is­verður þá verði það til þess að þér sé sjálfum heim­ilt að gera slíkt hið sama. Ef þetta er raun­veru­leg ástæða þess að þú hefur ekki svo mikið sem íhugað að stíga til hliðar sem þing­mað­ur, þá hef ég veru­legar áhyggjur af því að þér sé yfir höfuð falið opin­bert vald. Þetta segi ég í allri ein­lægni.

Þú hefur barist eins og ljón fyrir því að halda starfi þínu sem alþing­is­maður og þér hefur heppn­ast það vel. Þar með ert þú af gríð­ar­lega ein­beittum ásetn­ingi að velja þér vinnu­stað sem þú segir að sé fljót­andi í orð­færi á borð við það sem þið við­höfðuð á barn­um, á vinnu­tíma. Það er hins vegar þitt per­sónu­lega val og auð­vitað mátt þú velja þér atvinnu­að­stæður eftir smekk. En ekki gleyma því að í hvert sinn sem þú býður þig fram ert þú að sækj­ast eftir hluta af lög­gjaf­ar­valdi íslensku þjóð­ar­inn­ar. Þó hefur þú á sama tíma sýnt af þér hegðun sem gefur sterk­lega til kynna að þú berir ekki mikla virð­ingu fyrir lög­unum sem frá Alþingi kom­a. 

Hér nefni ég í fyrsta lagi sem dæmi þá stað­reynd að þú hefur í gegnum tíð­ina gerst upp­vís að því að mæta afar illa í vinn­una sem þing­maður þrátt fyrir að þing­skap­ar­lög kveði skýrt á um að það sé þín lög­bundna skylda. Í öðru lagi skráðir þú lög­heim­ili þitt í öðru kjör­dæmi en þú hafðir fast aðsetur í, sem er brot á lög­heim­il­is­lög­um. Þú gafst, í þriðja lagi, ekki upp þá hags­muni sem fólust í helm­ings­eign á Wintris aflands­fé­lag­inu, sem þú hafðir með mála­mynda­gern­ingi fært yfir á eig­in­konu þína. Þú sagðir auk þess ósatt um tengsl þín við félagið í fjöl­miðla­við­tali, kannski vegna þess að með eign ykkar hjóna í félag­inu hafðir þú í raun setið báðum megin borðs­ins í samn­inga­við­ræðum sem vörð­uðu þjóð­ina afar miklu. Þetta eru bara dæmi af handa­hófi sem mér duttu í hug í dag. 

Auð­vitað sækir ótti á venju­legan borg­ara, eins og mig, um það að fyrst þetta sé afstaða þín til þess­ara til­teknu laga þá sé afstaða þín svipuð til ýmissa ann­arra laga. Raunar benda orð þín til að svo sé því í hinni marg­nefndu upp­töku frá Klaustur bar stað­festir þú að það sem Gunnar Bragi Sveins­son hafi sagt um sendi­herra­spill­ing­una sé satt. Þetta gefur til­efni til að ætla að þú hafir verið vit­orðs­maður í fjórða lög­brot­inu sem felst í mis­notkun opin­bers valds.

Öll mann­leg kerfi byggj­ast á trausti. Þar er rétt­ar­ríkið ekki und­an­tekn­ing. Án trausts þá hrein­lega leys­ist sam­fé­lagið okkar upp. Sé það nið­ur­staðan að þing­maður geti framið lög­brot og sagt sið­ferði­lega skelfi­lega hluti, en skákað svo í skjóli þess að aðrir hafi gert sam­bæri­lega eða verri hluti en hann sjálf­ur, þá rofnar aug­ljós­lega alfarið traustið sem hægt er að bera til lög­gjaf­ar­sam­kund­unnar sem hann til­heyr­ir. Þar með raknar upp grunn­ur­inn að trausti gagn­vart öllum þeim sam­fé­lags­legu kerfum sem eru grund­völluð á íslenskum lög­um. Til að varpa ljósi á hversu alvar­leg sú nið­ur­staða er má taka dæmi úr umferð­inni. Við förum út í hana á hverjum degi hvort sem er keyr­andi, hjólandi eða gang­andi í þeirri blindu trú að við getum treyst hvort öðru. Ef mál þró­ast með þeim hætti að bara sumir stoppa á rauðu ljósi en aðrir ekki verður það fyrst til þess að sak­lausar mann­eskjur hljóta tjón af og að lokum til þess að kerfið hryn­ur. Allt stopp­ar.

Rök­stuðn­ing­ur­inn sem þú not­ast við er því hættu­legur og rangur sé hann skoð­aður út frá sið­ferð­is­legum mæli­kvörðum en hann er einnig rangur í lög­fræði­legum skiln­ingi. Dóm­stólar hafa margoft kveðið á um það að hafa beri að engu varnir í dóms­málum sem byggj­ast á því að sýkna skuli aðila á grund­velli þess að fjöl­margir aðrir aðilar hafi við­haft sam­bæri­lega hátt­semi og ákært er fyr­ir. Það þarf ekk­ert próf í rök­fræði til að skilja að ef þessi rök­stuðn­ingur er hald­bær væri aldrei hægt að ná fram­förum í sam­fé­lag­inu, því í honum felst að til þess að ámæl­is­verð hegðun hafi afleið­ingar þurfi að refsa öllum þeim sem mögu­lega hafa gerst sekir um slíka hegð­un. Þannig virkar rétt­ar­kerfið auð­vitað ekki, heldur sæta þeir refs­ingu sem hægt er að sanna að hafi fram­kvæmt ámæl­is­verða hluti. Líkt og við á um þig og vini þína á barn­um.

Í ljósi þess að þú telur þennan rök­stuðn­ing vera nægi­legan til að þú íhugir ekki einu sinni afsögn hef ég veru­legar áhyggjur af með­ferð þinni á lög­gjaf­ar­valdi. Til þess að skilja betur hvort áhyggjur mínar séu rétt­mætar bið ég þig að svara þremur spurn­ing­um:

  1. Varstu að ljúga þegar þú tókst undir orð Gunn­ars Braga um að til­tekin skipun sendi­herra myndi þýða að hann ætti inni greiða hjá Sjálf­stæð­is­flokkn­um?
  2. Hvað meintir þú nákvæm­lega þegar þú sagðir um Lilju Alfreðs­dótt­ur: „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karl­menn eins og kven­fólk kann“?
  3. Í sím­tali þínu til Freyju Har­alds­dótt­ur, bar­áttu­konu fyrir mann­rétt­ind­um, útskýrðir þú að það sem þú meintir þegar þú sagðir að Gunnar Bragi hefði sér­stakan áhuga á Freyju væri sú stað­reynd að póli­tískar skoð­anir Freyju færu mjög í taug­arnar á Gunn­ari. Hvaða skoð­anir Freyju eru það sem þér er kunn­ugt um að fari í taug­arnar á Gunn­ari?

Með von um við­brögð, 

Katrín Odds­dótt­ir, mann­rétt­inda­lög­fræð­ingur og for­maður Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins.

Lán lífeyrissjóða jukust um fjórðung að raunvirði milli ára
Heildareignir lífeyrissjóða nema yfir 4.400 milljörðum króna.
Kjarninn 19. apríl 2019
Mikil olíuverðshækkun á skömmum tíma
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 30 prósent á tveimur mánuðum.
Kjarninn 19. apríl 2019
Herbergjanýting var best í Reykjavík
Nýting versnar en herbergjum fjölgar
Á sama tíma og nýting hótelherbergja versnar hefur herbergjunum fjölgað. Herbergjanýting á Suðurnesjum minnkar mikið.
Kjarninn 19. apríl 2019
Lilja D. Alfreðsdóttir kynnti fjölmiðlafrumvarpið 31. janúar 2019.
Það helsta hingað til: Frumvarp um ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla
Kjarninn tók saman helstu fréttamál íslensks samfélags á fyrstu mánuðum ársins 2019. Þar á meðal er fjölmiðlafrumvarpið, sem verður líklegast lagt fyrir ríkisstjórn fyrir mánaðamót.
Kjarninn 19. apríl 2019
Kaupfélag Skagfirðinga lagði Morgunblaðinu til fé í upphafi árs
Upplýsingar um eignarhald á eiganda Morgunblaðsins sem birtar eru á heimasíðu fjölmiðlanefndar eru ekki í samræmi við upplýsingar sem komu fram í viðtali við forsvarsmann eins hluthafans í viðtali við blaðið á miðvikudag.
Kjarninn 19. apríl 2019
Fór með afsagnarbréf í vasanum á alla fundi í Hvíta húsinu
Birting á 448 síðna skýrslu saksóknarans Rupert Mueller er mál málanna í bandarískum fjölmiðlum í dag. Ekki er um neitt annað talað í sjónvarpsfréttum. Er þetta góð eða slæm skýrsla fyrir Bandaríkjaforseta?
Kjarninn 19. apríl 2019
Ísland með langminnst fjölmiðlafrelsi á Norðurlöndunum
Ísland fellur enn á árlegum lista yfir vísitölu fjölmiðlafrelsis. Súrnun í samskiptum stjórnmálamanna og fjölmiðla nefnd sem ástæða. Hin Norðurlöndin eru öll á meðal þeirra fimm landa sem njóta mest fjölmiðlafrelsis.
Kjarninn 18. apríl 2019
Haukur Arnþórsson
Umferðin eykst með sjálfkeyrandi bílum
Kjarninn 18. apríl 2019
Meira eftir höfundinnKatrín Oddsdóttir