Ofbeldi: Hlutlaust og faglegt

Auglýsing

Sumt ofbeldi er svo hvers­dags­legt að við sjáum það ekki sem slíkt. Og stundum þegar mann­eskja, sem hefur orðið fyrir hinu hvers­dags­lega ofbeldi biður um að hætt sé að sparka í sig, þá mætir henni stofnun sem seg­ir: „Sor­rí, við erum búin að leggja mat á hags­muni þína og þér er fyrir bestu að vera áfram ber­skjöld­uð.“

Og þegar fólk stígur fram og bendir á að verið sé að sparka í liggj­andi barn – barn sem biður ekki um annað en að fá að lifa mann­eskju­legu lífi – þá stígur æðsta yfir­valdið fram, ráð­herr­ann sjálf, og seg­ir: „Sor­rí, svona eru regl­urnar okkar og jafn­ræð­is­reglan bannar mér að gera sér­stakar ráð­staf­anir fyrir ofbeld­is­þega eins og þig.“

Og þegar mann­eskjan – sem reyndar er ekki mann­eskja í bókum kerf­is­ins heldur eitt­hvað annað – segir að hún sé bara barn sem hér hafi eign­ast góða vini, og að sig langi til að ganga í skóla, mennta sig, taka þátt í lífi sam­fé­lags, og bara yfir­leitt að geta horft fram á eitt­hvað sem hún geti hugsað um sem „góða fram­tíð“, þá mætir henni berg­málið af fyrri höfn­un: „Sor­rí, við erum búin að leggja mat á hags­muni þína og þér er fyrir bestu að vera áfram ber­skjölduð – vin­ir, mennt­un, öryggi og almenn vænt­um­þykja eru ekki hags­munir þín­ir.“

Auglýsing

Yfir­valdið seg­ist vinna málin fag­lega og á hlut­lausan hátt. En ég spyr: Hvað er fag­legt og hlut­laust við það að senda barn úr landi, taka það frá vinum sínum sem það hefur eign­ast í skól­an­um, og þurrka út þá litlu fram­tíð­ar­sýn sem það hefur hægt og bít­andi verið að gera sér vonir um?

Rétt­ar­ríkið

Þegar Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, sem er ráð­herra dóms­mála, segir að hún geti ekki stigið inn í ein­stök mál, þá er það alveg rétt hjá henni. Ráð­herra á ekki að stíga inn í ein­stök mál. Kjöl­festan í lýð­ræð­inu er rétt­ar­ríkið og þar er ekki stjórnað eftir duttl­ungum ráð­herra heldur eftir lögum sem eru almenn og gilda jafnt fyrir alla.

En til að bregð­ast við því að til stendur að vísa tveimur afgönskum fjöl­skyldum úr landi – ann­ars vegar ein­stæðum föður með tvo syni, 9 og 10 ára, hins vegar ein­stæðri móður með son og dótt­ur, 12 og 14 ára – þarf hún ekki að grípa inn í ein­stök mál. Hún getur hæg­lega sagt að það sé ekki svona sem við sem þjóð viljum koma fram við börn á flótta og því þurfi að end­ur­skoða fram­kvæmd lag­anna. Og á meðan á þeirri end­ur­skoðun stend­ur, þá verði engum börnum vísað úr landi.

Í rétt­ar­ríki ganga lögin jafnt yfir alla. En stendur Ísland undir því að kall­ast rétt­ar­ríki? Ganga lögin jafnt yfir alla? Barna­sátt­máli Sam­ein­uðu þjóð­anna var lög­festur á Íslandi 20 febr­úar 2013. Það þýðir að samn­ing­ur­inn hefur laga­gildi – það sem í honum stendur eru lög á Íslandi. Og sátt­mál­inn hefur í raun haft mikil áhrif á stöðu barna, fjöldi leik­skóla hefur t.a.m. lagt ríka áherslu á að hlustað sé börn, að þeim sé gefið færi á að hafa áhrif á umhverfi sitt, að þau taki þátt í að meta hvað séu hags­munir þeirra og hvað ekki, og að litið sé á þau sem borg­ara í rík­inu en ekki bara eitt­hvað sem hægt sé að ráðskast með þar til þau verði allt í einu borg­arar við 18 ára ald­ur­inn.

En þegar kemur að þeim hópi sem er hvað varn­ar­lausastur þá bregst rétt­ar­rík­ið. Það lítur ekki á börn á flótta sem full­gilda borg­ara. Það lítur ekki á þau sem börn heldur sem ofbeld­is­þega. Í rétt­ar­rík­inu er oft spurt: Hverjir eru hags­munir barna? Og til að svara þykir eðli­legt að spyrja börnin sjálf og for­eldra þeirra, skól­ana og fag­fólk sem starfar á sviði upp­eldis og mennt­un. En þegar barnið er á flótta mæta því aðrar stofn­an­ir. Það þykir ekki lengur við hæfi að spyrja börnin sjálf, ekki heldur for­eld­rana og enn síður skól­ann þar sem þau hafa ver­ið. Þegar for­eldrar meta hags­muni barn­anna sinna, t.d. þegar til stendur að flytja um hverfi, þá þykir eðli­legt að spyrja börnin (þótt þeirra mat ráði kannski ekki ferð­inni) og atriði eins og vænt­um­þykja, vinir og vonir ráða ferð­inni. Þegar um börn á flótta er að ræða virð­ast þessi atriði engu skipta – vænt­um­þykja, vinir og vonir telj­ast ekki með.

Í Barna­sátt­mál­anum segir að „það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa for­gang þegar félags­mála­stofn­anir á vegum hins opin­bera eða einka­að­ila, dóm­stól­ar, stjórn­völd eða lög­gjaf­ar­stofn­anir gera ráð­staf­anir sem varða börn“ (3. gr., 1. tl.). Og í annarri grein sátt­mál­ans er kveðið á um að börn hafi eitt­hvað um eigin örlög að segja: „Að­ild­ar­ríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoð­anir rétt til að láta þær frjáls­lega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið rétt­mætt til­lit til skoð­ana þess í sam­ræmi við aldur þess og þroska“ (12. gr., 1. tl.).

Í við­tali við RÚV segir sviðs­stjóri vernd­ar­sviðs útlend­inga­stofn­unar að það sé „for­svar­an­legt“ að senda börn til Grikk­lands. Hvað þýðir þetta? Gagn­vart hverjum er hægt að for­svara það að vísa á brott barni sem verið hefur á flótta í mörg ár, loks fundið skjól og öryggi, eign­ast vini og kannski byrjað að gera sér vænt­ingar um fram­tíð án hrakn­inga og ofbeld­is? Er það for­svar­an­legt gagn­vart lög­unum með til­liti rétt­ar­venju og for­dæma? Hvers­konar rétt­ar­ríki er það? Það er örugg­lega ekki for­svar­an­legt gagn­vart barn­inu sjálfu, ekki for­eldrum þess og ekki heldur gagn­vart 11.000 manns (4.7.2019) sem hafa skrifað undir áskorun um að Zainab Safari og fjöl­skyldu hennar verði veitt land­vist­ar­leyfi.

Er ekki mál að ráð­herr­ann stígi inn og segi ekki bara „Sor­rí“ heldur standi með gildum rétt­ar­rík­is­ins, lýð­ræð­is­ins – standi með mennsk­unni sjálfri – og segi: „Nei, þetta er ekki það rétt­læti sem við vilj­um. Við viljum rétt­læti þar sem litið er á börn á flótta sem börn – sem mann­eskjur sem njóta sömu rétt­inda og börn sem ekki eru á flótta.“

Ofbeldi gegn börnum

Stundum er ofbeldi lík­am­legt, stundum and­legt, en oft reyndar hvort tveggja. Ofbeldi er alltaf slæmt en það aldrei grimmi­legra en þegar það bein­ist gegn börn­um. Eitt sinn tíðk­að­ist að flengja börn, en því var hætt og nú er það bannað vegna þess að það er ofbeldi. Á Íslandi hefur þræl­dómur barna að mestu verið aflagður vegna þess að hann er dæmi um ofbeldi – þótt við njótum reyndar ávaxt­anna af barna­þrælkun í fjar­lægum lönd­um. Að slíta börn frá vinum sín­um, þegar engin nauð­syn kallar á, er ofbeldi. Það er líka ofbeldi að gefa barni von um fram­tíð og segja svo bara „sor­rí, allt í plati“ og senda það aftur út í von­leysi. Að hafa pláss í skóla fyrir barn og senda það svo í burtu með þeim orðum að von­andi finni það annan skóla ann­ars stað­ar, ein­hvern­tím­ann, er dæmi um ofbeldi.

Mik­il­væg­asta hlut­verk rétt­ar­rík­is­ins er að vernda borg­ar­ana gegn ofbeldi. Þess vegna er það líka versta dæmi um ofbeldi, þegar sjálft rétt­ar­ríkið beitir ofbeldi. Og þegar það beitir ofbeldi gegn börn­um, hefur það náð botn­in­um. Og hvað sem hver seg­ir, þá er slíkt ofbeldi ekki for­svar­an­legt.

Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka
Arion banki með of mikið eigið fé
Nýliðinn ársfjórðungur var góður fyrir Arion banka, samkvæmt nýútgefnu ársfjórðungsuppgjöri hans. Bankastjórinn segir bankann vera með of mikið eigið fé.
Kjarninn 28. október 2020
Tilgangur minnisblaðsins „að ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti“
Öryrkjabandalag Íslands segir fjármálaráðherra fara með villandi tölur í minnisblaði sínu.
Kjarninn 28. október 2020
Árni Stefán Árnason
Dýravernd – hallærisleg vanþekking lögmanns – talað gegn stjórnarskrá
Kjarninn 28. október 2020
Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra.
Meirihluti vill tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá
Meirihluti er hlynntur því að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu. Um það bil 2/3 kjósenda VG segjast hlynnt því, en minnihluti kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna.
Kjarninn 28. október 2020
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Sjónvarpstekjur Símans hafa aukist um nær allan hagnað félagsins á árinu 2020
Færri ferðamenn skila minni tekjum af reikiþjónustu. Tekjur vegna sjónvarpsþjónustu hafa hins vegar vaxið um 14 prósent milli ára og starfsmönnum fækkað um 50 frá áramótum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju uppgjöri Símans.
Kjarninn 28. október 2020
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni segir kökumyndband Öryrkjabandalagsins vera misheppnað
Fjármála- og efnahagsráðherra segir það rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið af efnahagskökunni sem íslenskt samfélag baki. ÖBÍ segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að auka fátækt sinna skjólstæðinga.
Kjarninn 28. október 2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Útlit fyrir að sóttvarnalæknir leggi til hertar aðgerðir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki ánægður með stöðu faraldursins og ætlar að skila minnisblaði með tillögum að breyttum sóttvarnaraðgerðum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fljótlega.
Kjarninn 28. október 2020
Alls segjast um 40 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa stjórnarflokkanna þrjá.
Samfylking stækkar, Sjálfstæðisflokkur tapar og Vinstri græn ekki verið minni frá 2016
Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að dala og mælist nú tæplega helmingur af því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkur forsætisráðherra yrði minnsti flokkurinn á þingi ef kosið yrði í dag.
Kjarninn 28. október 2020
Meira eftir höfundinnÓlafur Páll Jónsson