Brask og brall á Landssímareit

Auglýsing

Einu pen­ing­arnir sem komnir eru í félag það sem ætlar að reisa lúx­us­hótel á Lands­símareitn­um, þar sem ekki er einu sinni búið að steypa upp eða moka grunn, virð­ast koma frá líf­eyr­is­sjóð­un­um. Skuldir félags­ins eru samt þegar komnar í 4,1 millj­arð króna og þrátt fyrir lán á vild­ar­kjörum vantar a.m.k. 5 millj­arða króna til við­bótar sem ekki liggur fyrir hvernig félagið muni afla. Við eig­endur líf­eyr­is­sjóða lands­ins getum ekki látið það ótalið að ein­hver elíta geti braskað þannig og brallað með það fé sem við höfum sparað af vinnu­launum okk­ar. Í þessu til­felli fé sem hefði t.d. dugað til bygg­ingar á yfir 1000 hag­kvæmra íbúða fyrir almenn­ing. Við hljótum að krefj­ast svara við mörgum spurn­ingum sem upp koma þegar allt ferlið er skoð­að.

Margt und­ar­legt, ef ekki gruggugt, kemur í ljós þegar aðdrag­andi þessa verk­efnis er skoð­að­ur. Sam­kvæmt árs­reikn­ingi Dals­nes ehf. keypti félagið Lind­ar­vatn ehf., sem á Lands­símareit­inn, í des­em­ber 2014 af Pétri Þór Sig­urðs­syni hrl. á 930 millj­ónir króna. Átta mán­uðum síðar eða í ágúst 2015 keypti Icelandair 50% hlut í Lind­ar­vatni ehf. af Dals­nesi á 1,87 millj­arða króna, ef marka má skráð virði fjár­fest­ing­ar­innar sam­kvæmt árs­reikn­ingum Icelandair 2015, en kaup­verðið var sagt trún­að­ar­mál á sínum tíma. Það þýðir að sam­kvæmt verð­mati Icelandair og kaup­verði þess hafði virði félags­ins fjór­fald­ast á aðeins 8 mán­uð­um. Eða úr 930 millj­ónum króna í 3,74 millj­arða króna.

Lind­ar­vatn ehf. gaf út skulda­bréf 2. mars 2016 sem seld voru til fag­fjár­festa meðal ann­ars líf­eyr­is­sjóða. Heim­ilt er að stækka flokk­inn í allt að 6,25 millj­arða króna. Kjörin á skulda­bréf­unum eru 3,77% verð­tryggt og eru þau til 30 ára. Bréfin eru afborg­un­ar­laus fyrstu tvö árin en eftir það greidd með jöfnun afborg­unum mán­að­ar­lega. Fyrstu tvö árin eru greiddir vextir af skulda­bréf­un­um. Staða skulda­bréf­anna í árs­lok 2017 sam­kvæmt árs­reikn­ingi Lind­ar­vatns var 3,84 millj­arðar króna. Kaup­endur skulda­bréf­anna eru fag­fjár­festar og ætla má að líf­eyr­is­sjóð­irnir séu þar stærst­ir. Öll áhættan af þess­ari fjár­fest­ingu liggur hjá skulda­bréfa­eig­end­um, mest líf­eyr­is­sjóðum og almenn­ings­hluta­fé­lag­inu Icelanda­ir. Eins og áður segir er engin upp­bygg­ing haf­in.

Auglýsing

Eft­ir­far­andi spurn­ingar hljóta að vakna við svona lest­ur.

Hvaða for­sendur höfðu stjórn­endur almenn­ings­hluta­fé­lags­ins Icelandair fyrir því að kaupa 50% hlut af Dals­nesi ehf. á þessum kjörum og voru þeir með­vit­aðir um áhætt­una?

Hvaða for­sendur höfðu stjórn­endur líf­eyr­is­sjóð­anna til fjár­fest­inga í svo gríð­ar­lega áhættu­sömu verk­efni og það á kjörum sem telj­ast vera til vild­ar­kjara með hlið­sjón af kjörum fram­kvæmda­lána almennt? En félagið var áður fjár­magnað á kjörum sem voru 5,3%-8,8% verð­tryggt. Auk þess sem tekjur félags­ins eru litlar sem engar og getur rekst­ur­inn engan veg­inn staðið við greiðslur á útgefnum skulda­bréf­um. Þess má geta að hefð­bundin fram­kvæmda­lán eða brú­ar­lán bera á bil­inu 6-8% vexti.

Eins og áður sagði eru skuldir Lind­ar­vatns ehf. þegar orðnar 4,1 millj­arður króna og þar af eru skuldir vegna skulda­bréfa­láns 3,84 millj­arðar króna. Heim­ilt er að auka við skulda­bréfa­flokk­inn í allt að 6,25 millj­arða þannig að heim­ilt er að gefa út allt að 2,4 millj­arða að auki við það sem búið er að lána. Ekki er byrjað að grafa fyrir fram­kvæmdum þannig að upp­bygg­ing er ekki hafin á reitn­um. Einnig eru áhrif skyndi­frið­lýs­ingar Minja­stofn­unar á Vík­ur­garð óljós.

Hvernig ætla for­svars­menn Lind­ar­vatns ehf. að klára bygg­ingu lúx­us­hót­els, sem er ekki enn byrjað að byggja, fyrir þá 2,4 millj­arða króna sem eftir standa af 6,25 millj­arða króna skulda­bréfi? Ef verk­efnið tekur tvö ár frá þessum degi er ljóst að afborg­anir félags­ins af skulda­bréf­inu næstu 24 mán­uð­ina nema um 280 millj­ónum króna og áætl­aðar verð­bætur ofan á höf­uð­stól skulda 290 millj­ónir kr.. Eftir standa því um 2,1 millj­arður króna til að klára bygg­ingu 12.500 fm. lúx­us­hót­els (168 þús­und kr.fm) á einum erf­ið­asta og áhættu­samasta bygg­ing­ar­reit borg­ar­inn­ar. Í ljósi þess að kostn­aður við nýjar höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans við Hörpu­reit­inn eru var­lega áætl­aðar um 9 millj­arðar króna fyrir bygg­ingu 16.500 fm. skrif­stofu­hús­næðis eða um 545 þús­und kr.fm. getur þetta dæmi ekki gengið upp.

Ljóst er að ef veru­legar tafir verða á fram­kvæmdum þá kostar það mikla fjár­muni fyrir félagið eða um 300 m.kr. á ári eða 25 m.kr. á mán­uði. En ljóst er að nú þegar hefur orðið tveggja og hálfs árs töf á verk­efn­inu. Óvissu­þættir í svona verk­efni eru miklir; hver verður end­an­legur bygg­ing­ar­kostn­að­ur, hvenær tekst að ljúka fram­kvæmd­um, hver verður staðan á ferða­manna­mark­aði þegar hót­elið verður komið í rekst­ur? Mun rekstur á hót­el­inu geta staðið undir öllum þeim skuldum sem þarf að greiða af þegar það verður til­bú­ið? Gera má ráð fyrir að heild­ar­kostn­aður við þessa fram­kvæmd verði vel yfir 11 millj­arð­ar. Og nú eru Icelandair hot­els komin í sölu­ferli, hver verða áhrif þess?

Um er að ræða gríð­ar­lega áhættu­sama fram­kvæmd sem er ekki full fjár­mögnuð fyrir þeim flóknu og miklu fram­kvæmdum sem eftir eru. Þeir einu sem sitja eftir með alla áhætt­una af þessu áhættu­sama verk­efni eru því líf­eyr­is­sjóð­irn­ir. Þá spyr ég: Er það hlut­verk líf­eyr­is­sjóða að koma að svona áhættu­fjár­fest­ing­um? Og hvernig í ósköp­unum má það vera að sjóð­irnir koma að svona fjár­fest­ingu, á kjörum sem almenn­ingur eða önnur félög hefðu aldrei aðgang að?

Væri ekki nær að sjóð­irnir kæmu að upp­bygg­ingu á hús­næð­is­mark­aði, t.d. hag­kvæmum leigu­í­búð­um, sem hingað til hafa reynst vera örugg­ustu fjár­fest­ing­arnar og væru sam­fé­lag­inu til góða í leið­inni? Miðað við útboðs­lýs­ingar á skulda­bréfa­flokknum hefði verið mögu­legt að byggja yfir 1.000 hag­kvæmar íbúðir fyrir almenn­ing. Veltum því fyrir okk­ur.

Það virð­ist skipta máli hverjir fá að leika sér með líf­eyri lands­manna.

Magnús Halldórsson
Þau leynast víða tækifærin
Kjarninn 15. febrúar 2019
Uppsveifla án fordæma en nú er komið að kólnun
Gylfi Zoega prófessor í hagfræði fjallar um stöðu mála í hagkerfinu og kjaraviðræðum í grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag.
Kjarninn 15. febrúar 2019
Vilja að hlutfall efnis verði lækkað svo Fréttablaðið teljist styrkhæft
Fréttablaðið uppfyllir ekki skilyrði fyrir endurgreiðslu á kostnaði við ritstjórn, samkvæmt „lauslegri“ talningu.
Kjarninn 15. febrúar 2019
Ummæli í Hlíðamálinu dæmd dauð og ómerk
Hér­aðs­dómur Reykja­víkur dæmdi í dag ummæli manns um Hlíðamálið svokallaða dauð og ómerk sem og ummæli sem birtust á netmiðlinum Hringbraut.
Kjarninn 15. febrúar 2019
Fjórðungur bankastarfsmanna með yfir milljón á mánuði
Bankastarfsmenn leggja mesta áherslu á styttingu vinnuviku í yfirstandandi kjarasamningum. Meðaltal heildarlauna þeirra eru 838 þúsund krónur á mánuði. Hjá Eflingu er launahækkun langmikilvægasta baráttumálið, enda meðallaun þar 479 þúsund.
Kjarninn 15. febrúar 2019
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Bjóða hækkun upp á 20.000 krónur á mánuði
Tilboð Samtaka atvinnulífsins til verkalýðsfélaganna hljóðar upp á að laun upp að 600.000 krónum hækki um 20.000 krónur á mánuði hvert ár samningsins.
Kjarninn 15. febrúar 2019
Snæbjörn Guðmundsson
Drangajökulsvíðerni og villtasta prósentið
Kjarninn 15. febrúar 2019
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Blizzard rekur 800 manns, Apple viðburður lekur og Amazon kaupir Eero
Kjarninn 15. febrúar 2019
Meira eftir höfundinnRagnar Þór Ingólfsson